Ný #MeToo-bylgja hefur vonandi farið framhjá sem fæstum seinustu daga. Fólk af öllum kynjum, þó mest konur, hafa opnað sig á samfélagsmiðlum um kynferðislegt ofbeldi sem það hefur orðið fyrir í gegnum ævina. Margir hafa setið á þessu til fjölda ára og ekki þorað að ræða málin fyrr en nú.
Þessi nýja bylgja var rædd í Kastljósinu þar sem Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann og Andrés Ragnarsson, sálfræðingur, voru gestir Einars Þorsteinssonar. Kolbrún er einn skipuleggjenda Druslugöngunnar og hefur verið virk í umræðunni á Twitter seinustu daga og Andrés vinnur með gerendum, það er að hann rekur úrræðið Heimilisfriður sem fólk sem hefur beitt ofbeldi getur nýtt sér til að vinna í sínum vandamálum.
Komið var inn á í þættinum að bylgjan er öðruvísi nú en fyrri bylgja var. Þá var sögum safnað frá fjölda fólks og birt nafnlaust. Nú birtir fólk færslur undir nafni en nafn gerandans er oftast ekki tekið fram. Stundum lætur fólk fylgja með stað, stund og lýsingu á gerandanum sem hægt er að greina gerandann út frá. Það hefur einnig tekið við sér í dag að fólk birti nöfn þeirra sem brutu á þeim, þá oftar en ekki án nánari útskýringu á hvernig einstaklingurinn braut af sér. Þetta var rætt í þættinum.
„Maður verður að passa sig að vera ekki með einhverja gerenda meðvirkni, en er þetta ekki tvíeggja sverð? Er það hættulegt?“ spyr Einar viðmælendur sína í sambandi við nafnbirtingu.
Kolbrún segir þetta vera flókið lagalega séð þar sem nú séu komnar persónugreinanlegar upplýsingar.
„Ef það eru bara tveir sem koma til greina þá getur það dregið annan manninn niður án þess að hann hafi kannski gert eitthvað. Þetta er mjög flókin staða, við höfum aldrei séð þetta áður. Við vitum ekkert hvernig þetta endar en þetta gæti alveg farið út í svona,“ sagði Kolbrún.
Einar spurði Andrés hvort það að nafngreina gerendur sé fælingarmátturinn sem þarf til að gerendur hætti að brjóta af sér.
„Ég held að það verði ekki sá fælingarmáttur sem við höldum. Við þekkjum ekkert samfélag sem er laust við heimilisofbeldi. Því miður held ég ekki að við komi til að vera þannig hér heldur um langa hríð. Ég held að umræðan sé ofsalega góð, umræðan um það sem við erum að gera. Ég held að almenna skoðunin á hvað er ofbeldi, hvað er ekki ofbeldi, hvar liggur grensan, að við getum kynnt þetta, farið alveg niður í skólakerfið, unnið þetta eins og við erum að gera hér. Ég held að þar sé mesti fælingarmátturinn,“ sagði Andrés um nafngreininguna.