Hin fræga Ofurdeild sem 12 stórlið í Evrópu höfðu stofnað er enn að valda vandræðum fyrir félögin. Níu af þessum tólf liðum hafa nú þegar dregið sig úr keppninni vegna vaxandi neikvæðrar umræðu frá evrópska knattspyrnusambandinu, deildunum í landinu og stuðningsmönnum liðanna.
Barcelona, Real Madrid og Juventus eru einu félögin sem hafa ekki formlega dregið sig úr deildinni og eru ósátt við hótanir sem þau hafa fengið vegna Ofurdeildarinnar.
Forseti ítalska knattspyrnusambandsins, Gabriele Gravina, segir að Juventus verði vísað úr ítölsku A-deildinni ef félagið segir sig ekki úr Ofurdeildinni.
„Þegar félög samþykkja að taka þátt í ítölsku deildinni þá samþykkja þau ákveðið fyrirkomulag í leiðinni. Ef Juventus fer ekki eftir settum reglum verður félagið bannað úr deildinni,“ sagði Gravina á blaðamannafundi.
Bannið frá deildinni mun hefjast strax næsta haust. Gravina vonaðist þó til þess að liðið myndi segja sig úr Ofurdeildinni svo ekki kæmi til þessa.
Gengi Juventus hefur ekki verið upp á marga fiska í deildinni í vetur en liðið er í 5. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Napoli og Meistaradeildarsætinu eftirsótta.