Samningur hefur verið undirritaður á milli BYKO og Bílaumboðsins Öskju um að BYKO sjái alfarið um sölu á Honda-aflvélum.
Honda er stærsti framleiðandi aflvéla í heiminum með framleiðslu yfir 30 milljón tækja. Á meðal vinsælla afl- og smávéla má til dæmis nefna rafstöðvar, vatnssdælur og sláttuvélar sem fást bæði knúnar rafmagni og hefðbundnu bensíni. Þá eru vinsæl tæki eins og hekkklippur, snjóblásarar og margt fleira í fjölbreyttu úrvali Honda aflvéla. BYKO verður með vörunar til sölu í verslunum sínum og til leigu í Leigumarkaði BYKO. Askja er áfram umboðsaðili Honda bifreiða á Íslandi.
„Við erum afar ánægðir að fá Honda aflvélar yfir til BYKO. Honda er vel þekkt og vandað merki. Fólk veit að hvaða gæðum það gengur í Honda tækjum og vélum. Þetta styrkir enn frekar stöðu BYKO sem leiðandi fyrirtæki á markaði í sölu og leigu á aflvélum. Við leggjum metnað okkar í að vera fyrsti kostur fyrir einstaklinga, verktaka, fyrirtæki og stofnanir þegar kemur að því að kaupa eða leigja áhöld og tæki,“ segir Eggert Kristinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs hjá BYKO.