Edinson Cavani, framherji Manchester United, jafnaði í dag met stjóra síns, Ole Gunnar Solskjær og Javier Hernandez, Chicharito eins og hann er gjarnan kallaður, með því að skora sitt fimmta mark fyrir félagið eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Cavani skoraði síðasta mark leiksins í 1-3 sigri gegn Aston Villa fyrr í dag. Markið skoraði hann með skalla eftir fyrirgjöf frá Marcus Rashford. Markið var, sem fyrr segir, hans fimmta á tímabilinu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Solskjær skoraði jafnmörg mörk eftir að hafa komið inn af bekknum tímabilið 1998-1999. Chicharito gerði slíkt hið sama tímabilið 2010-2011. Þeir þrír deila því metinu eins og staðan er í dag.
Man Utd á enn eftir að leika fjóra leiki á tímabilinu. Það gæti því verið að Cavani muni bæta metið, komi hann oftar inn af bekknum.