Aston Villa tók á móti Manchester United í öðrum leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Heimamenn tóku forystuna en gestirnir sneru leiknum svo sér í vil.
Bertrand Traore kom Villa yfir um miðbik fyrri hálfleiks. Þá lék hann á Victor Lindelof og skoraði með góðu skoti. Man Utd átti ekki góðan fyrri hálfleik og verðskulduðu að vera 1-0 undir í hálfleik.
Þeir fengu þó vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik. Douglaz Luiz braut þá á Paul Pogba innan teigs. Bruno Fernandes skoraði örugglega úr spyrnunni. 1-1.
Stuttu síðar höfðu gestirnir snúið leiknum sér í vil. Þá skoraði Mason Greenwood. Hann tók skemmtilegan snúning framhjá Tyrone Mings áður en hann afgreiddi boltann í markið.
Edinson Cavani gulltryggði sigur United þegar hann skoraði með skalla á 87. mínútu. Marcus Rashord gaf flotta fyrirgjöf á hann.
Undir lok leiks fékk Ollie Watkins, framherji Aston Villa, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Meira var þó ekki skorað. Lokatölur urðu 1-3.
Rauðu djöflarnir eru í öðru sæti deildarinnar með 70 stig. Aston Villa er í því ellefta með 48 stig.