Upp úr klukkan níu í gærkvöld var tilkynnt til lögreglu um tvo vopnaða menn að brjótast inn í húsnæði á Grensásvegi. Mennirnir voru handteknir stuttu síðar þar sem þeir voru farþegar í leigubíl.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir að mikið hafi verið um hávaðaútköll á öllu höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Laust fyrir klukkan eitt í nótt höfðu sjúkraflutningamenn í miðbænum samband við lögreglu vegna þess að sjúklingur var að veitast að þeim. En þegar lögregla kom á vettvang var ástandið orðið rólegt.
Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um skrýtin hljóð sem komu frá íbúð í Hafnarfirði, líkt og barn væri að öskra. Kom svo í ljós að um fugl var að ræða.
Upp úr tíu var tilkynnt um mann sem hafði brotið sér leið inn í íbúð í Grafarvogi. Maðurinn var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu lögreglu.