Fjörið heldur áfram í Pepsi Max-deild karla í kvöld. Stórleikur umferðarinnar fer fram í Kaplakrika þegar Íslandsmeistarar Vals koma í heimsókn. Þá freista Keflvíkingar og Stjörnumenn þess að skora sín fyrstu mörk á leiktíðinni þegar liðin mætast í Keflavík.
FH leit virkilega vel út í fyrstu umferðinni á móti Fylki er þeir unnu 0-2. Þeir voru að vísu manni fleiri stærsta hluta leiksins. Þrátt fyrir það verður ekki tekið af hversu góð spilamennska þeirra var oft á tíðum. Það verður áhugavert að sjá hvort Þórir Jóhann Helgason, Steven Lennon, Matthías Vilhjálmsson og fleiri geti fylgt eftir góðri frammistöðu í Árbænum gegn Íslandsmeisturum Vals. Valur náði ekki hæstu hæðum í fyrstu umferð en gerðu þó nóg til þess að vinna ÍA 2-0. Þeir þurfa að mæta sterkari til leiks en þeir gerðu í fyrri hálfleik gegn Skagamönnum á móti þessu FH-liði.
Keflvíkingar töpuðu 1-0 fyrir Víkingum í fyrstu umferð í fremur bragðdaufum leik. Þeir þurfa að reyna að opna Stjörnuna og búa til færi fyrir markaskorarann sinn, Joey Gibbs, í kvöld. Stjarnan gerði markalaust jafntefli gegn Leikni í fyrstu umferð og mæta þeir aftur nýliðum í kvöld. Það er pressa á þeim eftir úrslitin á heimavelli í síðustu umferð.