Tilkynnt var um sprengjuhótun hjá Ríkisútvarpinu í gærkvöld. Starfsmaður RÚV tók við símtali rétt eftir kl. 19 og kom þar fram að sprengja ætti að springa seinna um kvöldið utan við húsnæði RÚV í Efstaleiti.
Gerandi var handtekinn seinna um kvöldið. Fylgst var vel með húsnæðinu og svæðið leitað, ekkert óeðlilegt fannst og ekkert varð úr hótununum um sprengingu.
Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að mikill erill hafi verið hjá lögreglu í nótt og mikið um hávaða- og ölvunarútköll.
Í gærkvöld var tilkynnt um bíl í miðbænum sem ekið niður grindverk og yfir umferðareyju. Bílnum var ekið af vettvangi en var stoppaður skömmu síðar í hverfi 109. Þar hafði honum verið ekið á umferðarskilti. Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Tilkynnt var um að ekið hefði verið á barn á reiðhjóli í Hafnarfirði í gærkvöld. Barnið var lítið slasað og var farið með það á slysadeild. Rætt var við ökumann og málið er í rannsókn.
Lögregla gerði upptæka kannabisræktun í Hafnarfirði. Grunaður aðili var handtekinn og tekinn af honum skýrsla en síðan var hann látinn laus.
Tilkynnt var um tvo menn í gærkvöld, í Kópavogi eða Breiðholti, sem voru að kasta steinum í hús og brjóta rúður. Þegar lögregla kom á vettvang voru mennirnir farnir.