Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal, hefur opnað sig um erfið veikindi sem hann glímdi við undir byrjun síðasta mánaðar en hann greindist með malaríu eftir landsliðsverkefni með landsliði Gabon.
Aubameyang missti þar af leiðandi af nokkrum leikjum með Arsenal, var lagður inn á sjúkrahús og missti fjögur kíló.
„Ég held að ég hafi tapað fjórum kílóum. Þetta voru erfiðir tímar og það var erfitt fyrir fjölskyldu mína að sjá mig svona. Ég var heppinn með að þetta var greint fljótt vegna þess að ef ekki er meðhöndlað malaríuveiki strax getur það leitt til stærri vandamála,“ sagði Aubameyang í viðtali á dögunum.
Aubameyang hefur verið að upplifa erfiða tíma hjá Arsenal á þessu tímabili en það virtist allt vera að stefna í góða átt fyrir tímabilið er hann skrifaði undir nýjan samning við Lundúnafélagið. Hann hefur hins vegar ekki staðið undir væntingum og átt erfitt með markaskorun á tímabilinu.
Aubameyang segist hins vegar vera klár í að byrja leikinn mikilvæga gegn Villarreal í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.
„Í huga mínum er ég 100% tilbúinn, líkamlega er ég ekki 100%, ég er meira svona 90%,“ sagði Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal.