Martin Keown, fyrrverandi leikmaður Arsenal, segir að núverandi knattspyrnustjóri liðsins, Mikel Arteta verði að stýra liðinu til sigurs í Evrópudeildinni ætli hann sér að halda áfram með liðið.
Keown, var á sínum tíma hluti af ósigrandi liði Arsenal og hann óttast að Arteta gæti farið sömu leið og Frank Lampard og José Mourinho en báðir knattspyrnustjóranir voru látnir fara frá félagi sínu á leiktíðinni.
„Ef þú horfir á Tottenham og Chelsea þá eru þau bæði fyrir ofan Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og bæði lið skiptu um knattspyrnustjóra á tímabilinu,“ sagði Keown í viðtali á Talksport.
Gengi Arsenal hefur ekki verið nægilega gott og eini möguleiki liðsins á titli og Evrópusæti á næstu leiktíð felst í því að liðið verður að vinna Evrópudeildina.
Arsenal tekur á móti Villarreal í seinni viðureign liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar en fyrri leiknum lauk með 2-1 sigri Villarreal.
„Arsenal á við mörg stór vandamál að stríða, vandamál sem hægt er að laga með því að vinna Evrópudeildina,“ sagði Martin Keown, fyrrverandi leikmaður Arsenal á Talksport.