Ed Sheeran einn vinsælasti tónlistarmaður í heimi hefur ákveðið að fara með fjármuni í heimabæi sinn og félagið sem hann elskar. Sheeran hefur ákveðið að styrkja fótboltaliðið Ipswich Town á næstu leiktíð.
Sheeran mun auglýsa á búningum félagsins, bæði hjá karla og kvennaliði félagsins. Sheeran ólst upp sem harður stuðningsmaður félagsins en það leikur í þriðju efstu deild.
Auglýsingin sem verður á treyjunum er +-=÷x TOUR og er merki um það að Sheeran hugi að tónleikaferðalagi innan tíðar. Hann hélt tvenna tónleika á Íslandi sumarið 2019.
„Þetta kemur allt betur í ljós innan tíðar,“ sagði Sheeran þegar um þetta var tilkynnt í dag. Ed Sheeran er einn tekjuhæsti tónlistarmaður í heimi og eru eigur hans metnar á 200 milljónir punda.
Íslenska hljómsveitin Kaleo gerði það sama og Sheeran í síðustu viku þegar hljómsveitin keypti auglýsingu á búningi Aftureldingar í Mosfellsbæ, reyndar verður auglýsing Kaleo aðeins á búningi karlaliðsins.