Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns, segir að það sé ótrúlega auðvelt að taka einstakling af lífi á netinu í dag. Þetta kom fram á Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hún segist furðu lostin yfir því hvernig samfélagsmiðlar virka. Þetta sé umhverfið sem börnin okkar alist upp við. Segir Saga að dómskerfið sé farið að verða allt of líkt því sem tíðkast í Bandaríkjunum. Segir hún dæmi um að foreldrar ólögráða barna séu að fá kröfur um greiðslu miskabóta vegna ummæla barna þeirra á samfélagsmiðlum. „Þetta er raunveruleikinn,“ segir Saga og að slíkt mál sé í gangi á Íslandi. Barnið er krafið um eina og hálfa milljón króna vegna ummæla í einkaskilaboðum þar sem piltur var sakaður um kynferðisbrot.
Saga fagnar því að fram séu komnar kærur gegn Sölva Tryggvasyni. Það sé rétti farvegurinn og hann geti tekið til varna þar. „Það er ekki hægt að taka til varna á samfélagsmiðlum.“
Saga lýsir því yfir að Sölvi sé kominn inn á geðdeild. „Hann er kominn á geðdeild. Hann er alveg búinn.“
Saga vonast til að Sölvi fái hvíld inni á geðdeildinni en álagið undanfarið hafi verið skelfilegt.
Saga spyr hvort við viljum láta samfélagið þróast í þá átt að almenningur sé að taka ákvörðun um hvort einstaklingar séu sekir eða saklausir af ávirðingum út frá slúðri á samfélagsmiðlum eða hvort það sé dómstólanna að sjá um það.