Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún, fræðimaður og höfundur bókarinnar „Leitin að Njáluhöfundi,“ skrifar um Geirfinnsmálið í Morgunblaðið í dag.
Keflvíkingurinn Geirfinnur Einarsson hvarf þann 19. nóvember árið 1974. Fimm ungmenni voru nokkrum árum síðar sakfelld fyrir að hafa orðið honum að bana (með mismikilli hlutdeild), þrír úr sama hópi Guðmundi Einarssyni sem hvarf frá Hafnarfirði á svipuðum tíma.
Á seinni tímum hefur rannókn lögreglu á málinu verið harðlega gagnrýnd og árið 2018 voru mál fimmenninganna tekin upp aftur og þau sýknuð.
Eftir stendur að gátan um hvarf Geirfinns er óleyst.
Gunnar leggur til að lögregla leggist yfir allar þær yfirheyrslur sem gerðar voru yfir öðrum aðilum en sakborningunum (sem eigi að vera til á segulbandsspólum) og yfirheyri fólkið aftur:
„Með þetta í huga gef ég mér að rannsóknarmenn hljóti að hafa yfirheyrt eftirtalið fólk: Fjölskyldu Geirfinns, tengdafólk hans og alla hans nánustu ættingja. Enn fremur alla hans vini og kunningja, vinnufélaga og allt það fólk sem hann hafði þá umgengist síðustu árin. Hljóta ekki rannsakendur að hafa yfirheyrt allt þetta fólk aftur, einhverjum dögum síðar og í þriðja skiptið að mánuði liðnum, alltaf með nákvæmlega sömu spurningunum? Nú þekki ég ekki hvaða vinnutilhögun lærðir rannsakendur viðhafa, en það er vitað að menn þurfa að hafa gott minni til að geta endurtekið síðar eitthvað sem ekki er fyllilega satt. Oft má líka heyra á raddhreim manna þegar eitthvað er ekki fullsagt eða eitthvað er sagt ósatt.
Með ofangreindum orðum er ég ekki að ætla vinum Geirfinns neitt óheiðarlegt, en ég tel hins vegar að lykillinn að þessu máli kunni að liggja í öllu því sem hann kann að hafa sagt í þeirra áheyrn og eins hvort menn hafi greint persónuleikabreytingar í fari hans áður en hann hvarf.“
Gunnar varpar fram þeirri tilgátu að Geirfinnur hafi fyrirfarið sér og undirbúið hvarf sitt sjálfur. Hann spyr einnig hvort hann hafi haft tengsl við herstöðina í Keflavík og hvort slík tengsl hafi verið könnuð.
Þá segir Gunnar:
„Við yfirheyrslur hljóta rannsakendur að hafa gert ráð fyrir því að einhverjir svarendur gæfu vísvitandi röng svör til að villa um og leiða rannsóknina á villigötur. Með aðferðum sem ég nefndi áðan, þá eiga rannsóknarmenn að átta sig á slíku.“
Gunnar spyr hvort sá sem myrti Geirfinn hafi ætlað að eiga við hann einhver samskipti en rás viðburða hafi leitt til manndráps. Hafi verið ásetningur að myrða Geirfinn þá telur Gunnar að minnst tveir menn hafi verið að verki. Lok greinar Gunnar eru eftirfarandi:
„Hafi það hins vegar verið ásetningur að myrða Geirfinn, þá hafa minnst tveir menn staðið að verki. Hafi slíkt verið ásetningur, þá er líklegt að önnur hvor af tveimur ástæðum liggi þar að baki; annað er eitthvað persónulegt og þá mjög djúpstætt og hitt er viðkomandi fjármálalegum og viðskiptalegum samskiptum. (Hann kynni líka að hafa verið látinn hverfa, af því að hann vissi of mikið um eitthvað, sem alls ekki mátti vitnast). Í áður nefndum yfirheyrslum kynni að leynast lykillinn að því að nálgast þetta.
Enginn vafi er á að rannsakendur hljóta að hafa skoðað í þaula allar peningafærslur sem höfðu farið í gegnum hendur Geirfinns. Á þeim árum voru handskrifaðar bankaávísanir mikið notaðar og ég ætla að hægt hafi verið að rekja allan feril þeirra. Nánasta fólk Geirfinns hlýtur að hafa vitað hvort hann notaði peningaseðla mikið í viðskiptum.
Meira verður fjallað um mál þetta síðar.“