Það kom öllum á óvart þegar Rúnar Páll Sigmundsson sagði upp sem þjálfari Stjörnunnar í gær. Rúnar hafði stýrt Stjörnunni frá árinu 2013.
Hvorki Stjarnan né Rúnar vilja gefa upp hvað gekk á, tímasetningin kom verulega á óvart enda sagði Rúnar starfi sínu laus eftir einn leik á Íslandsmótinu.
„Segja má að það sé langur tími miðað við það sem gengur og gerist í knattspyrnuheiminum. Ástæður þess að Rúnar tók þessa ákvörðun þekki ég ekki en heyrði á samtölum við Garðbæinga í gær að ákvörðunin kom á óvart,“ skrifar Kristján Jónsson í Morgunblaðið í dag.
Kristján segir að tímapunktur uppsagnar Rúnars sé afar áhugaverður. „Tímasetningin er athyglisverð því einungis einni umferð er lokið í Pepsí Max-deildinni. Maður verður alltaf undrandi þegar slíkar breytingar verða rétt í upphafi móts eftir langt undirbúningstímabil. En ástæðurnar geta verið misjafnar.“
Kristján tekur svo dæmi um menn sem hafa farið úr starfi á furðulegum tímapunkti. „Upp í hugann koma dæmi sem vöktu mikla athygli. Arnari Grétarssyni var sagt upp hjá Breiðabliki eftir tvo leiki árið 2017 og Marteini Geirssyni hjá Fram eftir tvo leiki árið 1995. Breiðablik hafði tapað báðum en Fram hafði tapað og gert jafntefli.“