Marc Wilson, fyrrum landsliðsmaður Írlands og leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar er kominn til liðs við 2. deildarlið Þróttar í Vogum. Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Ástríðan í kvöld.
Marc Wilson er 33 ára gamall og hefur meðal annars spilað fyrir Portsmouth, Stoke, Sunderland, Bolton og Bournemouth. Hann hefur leikið 181 leik í ensku úrvalsdeildinni og spilað 25 A-landsliðsleiki fyrir Írland.
Hermann Hreiðarsson, þjálfari liðsins, spilaði með Wilson í Portsmouth á árunum 2007-2010. Í tilkynningu frá félaginu segir að leikmaðurinn sé að afla sér þjálfararéttinda og verður hann ásamt Hermanni Hreiðars og Andy Pew í þjálfarateymi Þróttar.
Þróttarar voru nálægt því að komast upp í 1. deild í fyrsta skipti á síðasta tímabili. Þeir enduðu í 3. sæti deildarinnar sem var besti árangur liðsins frá upphafi.