Ísland er í riðli með Hollandi, Tékklandi, Hvíta Rússlandi og Kýpur í undankeppni HM 2023. Undankeppnin hefst í september á þessu ári og lýkur í september 2022, en umspilið verður svo leikið í október 2022.
Fyrri viðureignir
Ísland og Holland hafa mæst tíu sinnum. Ísland hefur unnið sex leiki, tveir hafa endað með jafntefli og Holland hefur unnið tvo.
Ísland og Tékkland hafa mæst fjórum sinnum. Tékkland hefur unnið tvo og tveir hafa endað með jafntefli.
Ísland og Hvíta Rússland hafa mæst fjórum sinnum og hefur Ísland unnið þá alla.
Ísland og Kýpur hafa aldrei mæst áður.
Undankeppninni er skipt í tvo hluta. Riðlakeppnin fer fram á einu ári, frá september 2021 til september 2022 og umspilið verður svo leikið í október 2022. Þau níu lið sem vinna sína riðla komast beint áfram í lokakeppnina. Liðin níu sem enda í öðru sæti síns riðils fara í umspil í október þar sem leikið verður um tvö laus sæti í lokakeppninni, ásamt einu sæti í sérstakri umspilskeppni þar sem þjóðir frá öllum heimsálfum taka þátt og keppa um þrjú laus sæti í lokakeppninni.