Búast má við átökum á milli þriggja af stærri félögum Englands í sumar þegar Jadon Sancho kantmaður Borussia Dortmund verður til sölu. Enskir fjölmiðlar segja frá.
Chelsea er nú byrjað að sýna áhuga á því að kaupa Sancho frá Dortmund í sumar. Borussia Dortmund hefur lækkað verðmiða sinn á Sancho og vill félagið nú fá 78 milljónir punda fyrir kantmanninn í sumar. Dortmund neitaði að selja Sancho fyrir ári síðan, þá heimtaði félagið 110 milljónir punda en Manchester United vildi ekki borga þá upphæð.
Forráðamenn Dortmund hafa greint frá því að samkomulag sé við Sancho um að hann geti farið í sumar, enski kantmaðurinn vill fara og verður verðmiðinn rétt undir 80 milljónum punda.
Í fréttum segir að Liverpool hafi áhuga á Sancho í sumar en áhugi Manchester United er einnig til staðar. Nú hefur svo Chelsea bætt sér í hóp þeirra liða sem vill kaupa kantmanninn.
Sancho hefur átt frábæra tíma hjá Dortmund en enski kantmaðurinn var áður í herbúðum Manchester City en fór til Dortmund til að spila meira.