Sharpton var harðorður í ávarpi sínu og sagði að það verði að gera út af við þá mismunun sem viðgangist í réttarvörslukerfinu.
Drápið á Brown hefur vakið mikla reiði og til mótmæla hefur komið. Það hefur ekki slegið á reiði fólks að yfirvöld hafa ekki viljað opinbera upptökur úr myndavélum lögreglunnar af því sem gerðist þegar Brown var skotinn til bana. Þetta hefur alið á reiði og vantrausti í garð lögreglunnar og yfirvalda.
„Ég þekki svik þegar ég sé þau. Birtið allar upptökur og leyfið fólki að sjá hvað kom fyrir Andrew Brown,“ sagði Sharpton og bætti við að ef Brown hefði gert eitthvað af sér hefði átt að draga hann fyrir dóm en enginn hefði leyfi til að neyða hann til að mæta í eigin útför.
Dómari í Norður-Karólínu hafnaði í síðustu viku kröfu um að lögreglunni verði gert að birta upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem voru á vettvangi þegar Brown var skotinn. Í rökstuðningi sínum sagði hann að það gæti spillt rannsókn málsins ef upptökurnar verða opinberaðar. Dómarinn, Jeff Foster, sagði að upptökurnar verði fyrst birtar eftir 30 til 45 daga til að lögreglan og saksóknarar hafi tækifæri til að ljúka rannsókn sinni.
Lögmenn fjölskyldu Brown hafa sagt að brot úr upptöku, sem þeir fengu að sjá, sýni að Brown hafi verið „tekinn af lífi“ af lögreglumönnum. Fjölskylda Brown segir að lögreglumenn hafi skotið á Brown þegar hann ók á brott frá þeim. Andrew Womble, lögfræðingur hjá lögreglunni, segir að lögreglumennirnir hafi aðeins miðað á bíl Brown en ekki hann sjálfan.