UEFA hefur staðfest að áhorfendur verða leyfðir í úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fer fram í Gdansk í Póllandi. Pólsk yfirvöld munu leyfa 25% af hámarksfjölda vallarins sem gerir það að verkum að 9500 áhorfendur geta mætt.
Stuðningsmenn sem ferðast til Póllands þurfa þó að fara í 10 daga sóttkví eða sýna fram á bólusetningu gegn Covid-19. Þá verður grímuskylda á vellinum og gæti verið að fólk þurfi að sýna fram á neikvætt Covid-19 próf eða bólusetningarskírteini við innganginn.
Miðarnir eru farnir í sölu og verður möguleiki á að krækja sér í miða til 7. maí. Alls verða 6000 miðar fyrir stuðningsmenn liðanna og almenning og verður dregið úr þeim umsóknum sem berast.
Enn er ekki ljóst hvaða lið mætast í úrslitaleiknum en Manchester United er með annan fótinn í úrslitaleiknum eftir 6-2 sigur gegn Roma í fyrri undanúrslitaleik liðanna. Þá vann Real Sociedad Arsenal með tveimur mörkum gegn einu og því er enn allt opið í þeim leik.