Troey Deeney, framherji Watford, og álitsgjafi um enska knattspyrnu hjá Talksport, segir að Pep Guardiola, sé ekki lengur hrifinn af Aguero sem leikmanni og að hann muni eiga lítinn þátt í atlögu Manchester City að sigri í Meistaradeildinni það sem eftir lifir tímabils.
Samningur Aguero við Manchester City rennur út í sumar og það er orðið ljóst að framherjinn mun leita á önnur mið. Aguero er markahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester City en hefur lítið komið við sögu á tímabilinu. Hann var þó á skotskónum um síðastliðna helgi gegn Crystal Palace
„Frá því sem ég hef séð þá tel ég að Guardiola sé ekki lengur hrifinn af Aguero hver sem ástæðan er. Hvort það eru þrálát meiðsli hans eða það að hann fær ekki jafn mikið út úr honum og á árum áður. Aguero er bara á krossgötum núna og þarf að taka næsta skref á ferlinum,“ sagði Troy Deeney á TalkSport.
Deeney segir að Guardiola treysti argentínska framherjanum ekki fyrir því að spila í Meistaradeild Evrópu lengur.
„Í Meistaradeild Evrópu tel ég að Pep treysti honum ekki lengur,“ sagði Troy Deeney í viðtali á Talksport.