Albaninn Angjelin Sterkaj, sem játað hefur morð á samlanda sínum, Armando Bequiri, fyrir utan heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði, laugardagskvöldið 13. febrúar, var með morðvopnið í fórum sínum þremur vikum fyrir morðið og var lögreglu kunnugt um það. Þetta kemur fram í umfjöllun Kompáss á Stöð 2 um skipulagða glæpsastarfsemi á Íslandi.
Stöð 2 mun á þriðjudagskvöld birta viðtal við ekkju Armandos, Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur. Angjelin var eftirlýstur í Albaníu vegna alvarlegra glæpa en íslensk stjórnvöld neituðu að framselja hann þar sem ekki er í gildi framsalssamningur milli þjóðanna. Um þetta segir Þóranna við Stöð 2:
„Ég vona að þetta veki spurningar hjá fleirum en mér, að fólk geti ekki gengið um hér eftir að hafa framið hrottalega glæpi einhvers staðar annars staðar.“
Í þætti Kompáss kemur fram að umfang skipulagðrar glæpastarfsemi hafi aukist hér. Starfandi séu um 15 skipulagðir glæpahópar og í sumum þeirra séu um 30 meðlimir. Þetta er alþjóðleg blanda en margir meðlimanna eru frá Austur-Evrópu og Albaníu.
Meðal glæpanna sem hóparnir stunda eru fíkniefnaframleiðsla, peningaþvætti og vændi. Fram kemur í þættinum að lögreglan hafi frá 2018 til 2021 lagt hald á fíkniefni að verðmæti um 1 milljarð króna, en áætlað er að það sé um 10% af fíkniefnum í umferð.
Margir undirheimamenn hafa vopnast en að sögn lögreglu hafa þeir fremur áform um að beita vopnum hver gegn öðrum en gegn almenningi.