Fyrri leikir undanúrslita Evrópudeildarinnar fóru fram í kvöld. Manchester United bar sigur úr býtum gegn Roma á heimavelli og Arsenal laut í lægra haldi gegn Villarreal á útivelli.
Á Old Trafford í Manchesterborg, tóku heimamenn í Manchester United á móti ítalska liðinu Roma. Leiknum lauk með 6-2 sigri Manchester United í fjörugum leik.
Bruno Fernandes, kom heimamönnum yfir með marki strax á 9. mínútu eftir stoðsendingu frá Edinson Cavani.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 15. mínútu þegar hendi var dæmd á Paul Pogba innan vítateigs Manchester United og Roma fékk vítaspyrnu. Lorenzo Pellegrini, tók spyrnuna og jafnaði leikinn fyrir Roma.
Á 34. mínútu, kom Edin Dzeko, Roma yfir með marki eftir stoðsendingu frá Pellegrini og leikar í hálfleik stóðu 2-1, Roma í vil.
Fljótlega eftir að flautað var til seinni hálfleiks, nánar tiltekið á 48. mínútu, jafnaði Edinson Cavani leikinn fyrir Manchester United.
Cavani var síðan aftur á ferðinni er hann kom Manchester United yfir með marki á 64. mínútu og þá opnuðust flóðgáttir í vörn Roma.
Bruno Fernandes, bætti við fjórða marki Manchester United úr vítaspyrnu á 71. mínútu og Paul Pogba bætti við fimmta marki liðsins fjórum mínútum síðar.
Það var síðan Mason Greenwood sem innsiglaði 6-2 sigur Manchester United með marki á 86. mínútu.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og því formsatriði fyrir Manchester United að klára einvígið er liðin mætast næst. Seinni leikur liðanna fer fram í Róm á Ítalíu í næstu viku.
Á Estadio De La Cerámica á Spáni, tóku heimamenn í Villarreal á móti Arsenal. Leiknum lauk með 2-1 sigri Villarreal. Unai Emery, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal er við stjórnvölinn hjá Villarreal og hann átti eftir að gera fyrrum félagi sínu grikk.
Strax á 5. mínútu leiksins komst Villarreal yfir með marki frá Manu Trigueros sem skoraði eftir stoðsendingu frá Samuel Chukwueze.
Albiol, tvöfaldaði síðan forystu heimamanna með marki á 29. mínútu eftir stoðsendingu frá Gerard Moreno.
Arsenal varð fyrir öðru áfalli á 57. mínútu þegar að Dani Ceballos, leikmaður liðsins, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt spjald. Arsenal þurfti því að leika manni færri það sem eftir lifði leiks.
Á 71. mínútu fengu gestirnir hins vegar vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Bukayo Saka innan vítateigs. Pepe tók spyrnuna og skoraði mikilvægt útivallarmark fyrir Arsenal.
Á 80. mínútu fékk Étienne Capoue, leikmaður Villarreal að líta sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Því var aftur orðið jafnt í liðum.
Fleiri mörk voru þó ekki skoruð í leiknum sem endaði með 2-1 sigri Villarreal. Seinni leikur liðanna fer fram á Emirates Stadium í Lundúnum í næstu viku.