Jose Mourinho var rekinn frá Tottenham í síðustu viku og tók Ryan Mason við þjálfarastarfinu til bráðabirgða. Hann hefur stjórnað liðinu í tveimur leikjum, unnið einn og tapað einum. Tapleikurinn kom í úrslitum Carabao bikarsins gegn Manchester City um helgina. Ekki er þó talið að hann fái traustið fram á næsta tímabil.
Þjálfaramál Tottenham hafa mikið verið rædd og ýmsir hafa verið orðaðir við starfið.
Í frétt DailyMail segir að Brendan Rodgers, þjálfari Leicester, og Julian Nagelsmann, þjálfari RB Leipzig, hafi verið efstir á listanum. Í morgun var staðfest að Nagelsmann tekur við Bayern Munchen í sumar eins og búist var við. Þá hefur Rodgers ekki áhuga á starfinu að sögn Sportsmail en gengi Leicester hefur verið frábært undir hans stjórn og á liðið góðan möguleika á Meistaradeildarsæti.
Þjálfari Ajax, Erik ten Hag, er einnig á óskalista Daniel Levy og gæti hann verið góður kandídat fyrir Tottenham sem vilja spila sóknarbolta sem var ekki raunin á tíma Mourinho hjá félaginu. Ten Hag rennur út af samningi á næsta ári og gæti því fengist ódýrt.
Þá er nafn Roberto Martinez einnig í umræðunni og telja ýmsir heimildarmenn Sportsmail að hann væri til í starfið eftir EM í sumar. Þá eru Gareth Southgate og Ralf Rangnick einnig á óskalistanum.