Það er sannkallaður gleðidagur fyrir knattspyrnuáhugamenn í Englandi í dag. Nú eigast við Manchester City og Tottenham í úrslitaleik enska deildarbikarsins. Leikurinn fer fram á þjóðarleikvangi Englendinga, Wembley.
Leikurinn er ekki það eina stóra við daginn, heldur einnig sú staðreynd að 8000 stuðningsmenn eru saman komnir á Wembley til að styðja sitt lið áfram. Þetta er aðeins í annað skipti síðan að Covid-19 heimsfaraldurinn hófst, að áhorfendum er hleypt inn á Wembley.
Þetta er liður í áætlunum breskra stjórnvalda um að aflétta fjöldatakmörkunum þar í landi í skrefum. Leikurinn í dag er hluti af verkefni þar sem verið er að skoða hvernig til tekst að leyfa slíkujm fjölda að horfa á íþróttaviðburð.
Í næsta mánuði er gert ráð fyrir 21.000 áhorfendum á úrslitaleik enska bikarsins þar sem Leicester og Chelsea mætast.