Thierry Henry, fyrrverandi leikmaður Arsenal og goðsögn í sögu félagsins, segist ekki þekkja Lundúnafélagið lengur. Eigendur Arsenal ákváðu að gerast stofnaðilar að Ofurdeildinni sem síðan varð ekkert úr.
Í kjölfarið brutust út mikil mótmæli á vegum stuðningsmanna Arsenal þar sem þess var krafist að eigandi félagsins, Stan Kroenke, myndi selja það.
„Félagið tilheyrir stuðningsmönnunum. Ég elska Arsenal og mun styðja félagið þangað til ég dey en ég þekki ekki félagið lengur. Það sem gerðist núna, þegar reynt var að stofna Ofurdeildina, meikar ekki sens,“ sagði Henry í viðtali við Telegraph.
Henry segir eigendur félagsins á leið í ranga átt. Þeir reki Arsenal eins og fyrirtæki en ekki knattspyrnufélag.
„Kannski er það vegna vanþekkingu þeirra á knattspyrnulegum gildum og kannski heillaði peningurinn og varð of mikil freisting. Þetta var röng ákvörðun, mjög röng,“ sagði Thierry Henry, fyrrverandi leikmaður Arsenal.