Harry Redknapp, fyrrverandi knattspyrnustjóri Tottenham, hefur trú á því að Daniel Levy, framkvæmdastjóri félagsins, sé nú þegar búinn að ná samkomulagi við þann aðila sem verður næsti knattspyrnustjóri félagsins.
José Mourinho, var á dögunum rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá félaginu eftir erfið úrslit á tímabilinu.
Redknapp þekkir vel til Levy og hann telur að nýr knattspyrnustjóri muni taka við félaginu stuttu eftir að núverandi tímabili lýkur.
„Þeir hljóta að vera búnir að setja sig í samband við næsta knattspyrnustjóra félagsins, þannig vinna þeir. Það er ekki möguleiki á því að þeir séu ekki búnir að því,“ sagði Redknapp við Talksport.
Hann telur að knattspyrnustjórinn sem um ræðir sé að ljúka tímabilinu hjá öðru félagi en að hann sé búinn að gera samkomulag við Tottenham.
Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri RB Leipzig, hefur verið orðaður við starfið. Þá hafa nöfn Steven Gerrard, knattspyrnustjóra Rangers og Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Leicester City, einnig borið á góma.