Daniel Ek, sænskur stofnandi og eigandi tónlistastreymisveitunnar Spotify, er alvara með áhuga sínum á því að kaupa Arsenal. Telegraph greinir frá þessu.
Ek skrifaði á Twitter í gær að hann gæti vel hugsað sér að kaupa Arsenal sé Stan Kroenke, eigandi félagsins, tilbúinn til þess að selja.
Menn veltu í kjölfarið fyrir sér hvort að einhver alvara væri á bakvið tíst Svíans. Hann skrifaði það á meðan mótmæli gegn Stan Kroenke, eiganda félagsins, áttu sér stað fyrir utan Emirates-völlinn, heimavöll Arsenal. Hann lét það fylgja með að hann hefði stutt félagið allt sitt líf.
Telegraph greinir í kvöld frá því að honum sé alvara og að tilboð sé í kortunum. Kroenke hefur þó aldrei gefið í skyn að hann hyggist selja.
Kroenke hefur lengi verið óvinsæll á meðal stuðningsmanna Arsenal. Þá sérstaklega eftir að hann tók þátt í því að reyna að setja á laggirnar nýja evrópska Ofurdeild, ásamt 11 eigendum og forsetum annara liða, á dögunum.