Íslandsdeild samtakanna Transparancy International hefur sent frá sér tilkynningu vegna framgangs Samherja vegna frétta og eftirlits með starfsemi félagsins. TI segja framgöngu Samherja vera langt út fyrir ramma eðlilegra starfshátta.
„Fyrirtæki sem byggja starfsemi sína og fjárhag á nýtingu auðlindar sem þjóðin á og ríkið úthlutar þeim rétti til að nýta en neitar langflestum öðrum um þann nýtingarrétt, hljóta eðli máls samkvæmt að bera sérstaka samfélagslega ábyrgð. Axli þau ekki þá ábyrgð verða stjórnvöld, sem fara með vald fyrir hönd almennings, að grípa til ráðstafana sem duga til að koma í veg fyrir að arður sem verður til á grundvelli nýtingarréttar á auðlind, sem fólkið í landinu á, sé nýttur til að vega að og grafa undan tjáningarfrelsinu, fólki, fjölmiðlum og stofnunum sem gegna mikilvægu hlutverki við að verja hagsmuni almennings,“ segir í tilkynningunni. TI tekur undir áhyggjur Seðlabankastjóra og annarra sem hafa tjáð sig með sama hætti.
Rannsókn Seðlabankans á starfsemi Samherja hófst árið 2012 vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum. TI segja að Samherji hafi síðan þá háð herferð gegn stofnunum, fjölmiðlum og einstaka fólki.
„Fyrirtækið hefur fjármagnað áróðursþætti til birtinga, fjármagnað bókaskrif í áróðurstilgangi og haldið úti fordæmalausu túlkunarstríði á sögunni. Jafnvel á nefndarfundum Alþingis hafa fulltrúar fyrirtækisins sýnt af sér hegðun sem engum er sæmandi. Í Namibíumálinu hefur fyrirtækið brugðist við með samskonar hætti og raunar gefið í. Fulltrúar fyrirtækisins hafa ógnað og njósnað um einstaklinga sem fjallað hafa um málið, kostað áróðursmyndbönd til almennings þar sem hreinum og klárum ósannindum er haldið fram og ítrekað hafa verið leiðrétt. Framganga fyrirtækisins getur ekki talist innan eðlilegra marka,“ segja TI og bæta við að til að halda spillingu niðri sé mikilvægt að fyrirtæki sýni þá samfélagslegu ábyrgð að gæta þess að varast spillingu í viðskiptum sínum. Það sé sérstaklega mikilvægt þegar stór og auðug fyrirtæki eiga í hlut sem eru áhrifamikil í samfélaginu.
Í tilkynningunni segir að uppljóstrarar, fjölmiðlar og óháðir blaðamenn, eftirlitsstofnanir og starfsfólk þeirra séu forsenda þess að mögulegt sé að verja almenning fyrir þeim samfélagslega skaða sem spilling veldur.
„Óeðlilegar ásakanir, ógnanir og hefndaraðgerðir gagnvart uppljóstrurum, fjölmiðlafólki og starfsfólki eftirlitsstofnana beinast því alls ekki einungis að þeim einstaklingum sem í hlut eiga heldur öllum almenningi, hagsmunum hans og mikilsverðum réttindum. Reynslan hvarvetna í heiminum sýnir svo ekki verður um villst að spilling þrífst yfirleitt afar vel þar sem miklar náttúruauðlindir eru og ríki úthluta rétti til nýtingar þeirra. Íslendingar verða því að vera mjög vakandi fyrir því að arður af auðlindum þeirra sé nýttur í þágu þjóðarinnar og alls ekki til að vega að mikilsverðum hagsmunum almennings,“