Síðasta morðið var framið á laugardaginn en þá var kona myrt á götu úti í Alvesta í Smálöndunum. Maður á fertugsaldri var handtekinn vegna morðsins.
Frá 2019 til 2020 fjölgaði tilkynntum ofbeldisbrotum gegn konum um 15,4% samkvæmt tölum frá forvarnarráði landsins.
Märta Stenevi, jafnréttisráðherra, hefur boðað formenn allra stjórnmálaflokka á sinn fund til að leita lausna á þessum vanda. „Ég er örvæntingarfull, brugðið en ekki hissa því þetta gerist daglega. Við getum ekki bara einblínt á hvað á að gera eftir að glæpurinn er framinn. Við verðum að grípa fyrr inn,“ sagði hún.
Anders Thorberg, yfirmaður öryggislögreglunnar Säpo, dró ekki úr alvarleika mála af þessu tagi þegar hann var beðinn um að segja sína skoðun á hversu alvarleg þau eru. „Þetta er stærsti samfélagsvandi Svíþjóðar. Eitt mál er of mikið. Mörgum konum og börnum er misþyrmt árlega. Þetta verður að stöðva,“ sagði hann.
Á síðasta ári voru 25 konur myrtar í Svíþjóð, af þeim voru 13, eða höfðu verið, í ástarsambandi við morðingja sinn. 2019 voru 16 konur myrtar af mönnum sem þær voru í sambandi við eða höfðu átt í ástarsambandi við.