fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Pressan

Krabbameinssjúklingar virðast hafa læknast af krabbameini við að smitast af kórónuveirunni

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 21. apríl 2021 07:00

Kórónuveira. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

61 árs enskur krabbameinssjúklingur, sem var með Hodgkins eitilfrumuæxli, sem er sjaldgæf tegund krabbameins, veiktist af COVID-19 skömmu áður en hann átti að byrja í lyfjameðferð við krabbameininu sem hafði breiðst út um stóran hluta líkama hans.

Maðurinn varð mjög veikur af völdum COVID-19 og var lagður inn á Royal Cornwall sjúkrahúsið þar sem hann þurfti meðal annars að vera tengdur við súrefni hluta af þeim 11 dögum sem hann lá þar. Þegar hann hafði jafnað sig var hann sendur í sneiðmyndatöku til að læknar gætu séð hversu mikið krabbameinið hefði breiðst út.

Læknarnir trúðu varla sínum eigin augum þegar niðurstöðurnar lágu fyrir því nær öll krabbameinsæxlin, sem þeir höfðu fundið áður en maðurinn veiktist af COVID-19, voru nú nær algjörlega horfin. „Við teljum að COVID-19 hafi látið líkamann búa til ónæmisviðbragð við æxlunum. T-frumurnar, sem berjast við sýkingar í líkamanum, hafa líklega einnig ráðist á krabbameinsfrumurnar,“ sagði Sarah Challoner, krabbameinslæknir, að sögn The Telegraph.

COVID-19 gæti hafa virkað sem hvati fyrir ónæmiskerfi líkamans sem hafi um leið og það barðist við COVID-19 ráðist gegn krabbameininu. „Æxli komast oft hjá því að ónæmiskerfið ráðist á þau en í þessu tilfelli virðist COVID-19 hafa hrundið áhrifaríkri árás af stað. Það er á ákveðinn hátt ekki svo undarlegt að við sjáum svona tilfelli í ljósi þess hversu margir krabbameinssjúklingar eru og hversu margir þeirra hafa smitast af COVID-19,“ sagði Paul Hunter, prófessor við University of East Anglia, í samtali við Daily Mail. Hann varaði krabbameinssjúklinga um leið við því að reyna að smitast af COVID-19 í von um að það lækni krabbameinið. „Líkurnar á að maður látist af völdum COVID-19 eru miklu meiri en að maður læknist af krabbameini. Fólk á alls ekki að gera tilraunir með þetta á sjálfu sér,“ sagði hann.

Svipuð tilfelli hafa komið upp á Ítalíu. Eitt þeirra snýst um tvítugan mann sem var með algenga tegund krabbameins. Hann hafði farið nokkrum sinnum í lyfjameðferð en krabbameinið tók sig alltaf upp á nýjan leik. Hann veiktist af COVID-19 en eftir fimm daga rúmlega með háan hita og hósta jafnaði hann sig af sjúkdómnum. Nokkrum vikum síðar fór hann í sneiðmyndatöku og þá reyndist krabbameinið vera nær algjörlega horfið. Ekki hefur verið sannað að COVID-19 hafi þar átt hlut að máli en ítalskir læknar telja að sjúkdómurinn hafi virkjað ónæmiskerfið sem hafi þá farið að takast á við krabbameinið.

Þetta hefur vakið upp spurningar um hvort bóluefnin gegn kórónuveirunni geti hugsanlega haft svipuð áhrif. Vísindamenn hjá BioNTech, sem þróuðu eitt bóluefnanna í samvinnu við lyfjafyrirtækið Pfizer, vinna nú hörðum höndum að því að þróa bóluefni gegn krabbameini á svipuðum grunni og bóluefnið gegn kórónuveirunni var búið til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans
Pressan
Fyrir 4 dögum

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið