Japan, Filippseyjar og Taívan hafa mótmælt ágengni og yfirgangi Kínverja og á sunnudaginn sendu Bandaríkin flugvélamóðurskipið Theodore Roosevelt og flotadeildina sem fylgir því inn í Suður-Kínahaf. Það er í annað skipti sem það er gert á þessu ári. Bandaríski flotinn skýrði einnig frá því að tundurspillirinn USS John S. McCain hafi siglt um Taívansund á miðvikudag í síðustu viku. Það var tveimur dögum eftir að Kínverjar tilkynntu að flugmóðurskipadeild myndi vera við æfingar nærri Taívan.
Kínverskar orrustuþotur rjúfa lofthelgi Taívan nær daglega þessa dagana. Í síðustu viku skýrði Joseph Wu, utanríkisráðherra Taívan, frá því að Kínverjar hafi nú rofið lofthelgi Taívan oftar en á sama tíma á síðasta ári sem var þó metár. Hann sagðist jafnframt sjá greinilega hættu á að Kínverjar ráðist á Taívan og sagði að landsmenn séu reiðubúnir til að verjast til síðustu byssukúlu.
Að auki hafa Kínverjar verið iðnir við að ögra nágrönnum sínum á Filippseyjum og Japan að undanförnu með ýmsum hætti.
Stavridis fór yfir það í vikuritinu Nikkei Asia hvaða rauðu línur Bandaríkin hafi svo að segja dregið varðandi stöðuna í heimshlutanum. Meðal þeirra eru kjarnorku-, efnavopna- eða lífefnaárásir Kínverja eða Norður-Kóreu á Bandaríkin eða bandamenn þeirra. Árás á Taívan eða eyjurnar þar í kring. Efnahagslegt hafnbann á Taívan eða tölvuárás á opinbera innviði landsins eða stofnanir. Kínversk árás á japanskar hersveitir sem verja japanska hagsmuni á Senkakueyjunum og hafsvæðinu í kringum þær. Kínversk árás á svæði eða hernaðarlega mikilvæga staði sem Bandaríkin eða bandamenn þeirra eiga. Kínverjar hafa einmitt aukið hernaðarlegan þrýsting á sumum þessara sviða. Stavridis segir að ljóst sé að Bandaríkin séu að auka hernaðarlega viðveru sína í heimshlutanum og getu sína til að geta tekist á við Kínverja á næstu áratugum.