Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að viðræður standi nú yfir um fundinn en ef af honum verður mun helsta málið verða ástandið í austurhluta Úkraínu en þar hafa átök færst í aukana að undanförnu. Auk þess hafa Rússar stefnt tugum þúsunda hermanna að úkraínsku landamærunum og óttast margir að þeir hyggi á innrás í Úkraínu á næstunni.
Fréttablaðið segir að í Pravda, Ria Novosti og fleiri rússneskum miðlum sé vitnað í Sergei Rogov, yfirmann ISKRAN sem er ráðgjafarstofnun Rússlands í málefnum Bandaríkjanna og Kanada. Hlutverk ISKRAN er meðal annars að skipuleggja ráðstefnur og fundi. Ria Novosti hefur eftir Rogov að Reykjavík hafi sögulega merkingu og vísaði þar til leiðtogafundarins í Höfða 1986. „Á fundinum urðu þáttaskil í kalda stríðinu og spennan minnkaði. Á fundinum gætu Pútín og Biden samþykkt ályktanir Gorbasjovs og Reagans um að það verði ekkert kjarnorkustríð og að það séu engir sigurvegarar í slíku stríði,“ er haft eftir honum.
En Ísland er ekki eitt um hitunina því Finnar, Tékkar og Austurríkismenn hafa lýst yfir áhuga á að halda leiðtogafundinn ef af honum verður.
Fréttablaðið hefur eftir Sveini Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, að engin ósk hafi borist um að halda leiðtogafundinn hér á landi en ef hún berist verði hún tekin til jákvæðrar skoðunar. Hann minnti á að svipaður orðrómur hafi verið uppi þegar Pútín fundaði með Donald Trump í fyrsta sinn en sá fundur fór fram í Helsinki í júlí 2018.