fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Sakamál – Internetfrægð, þráhyggja og morð í beinni

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 17. apríl 2021 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hún var þekkt undir mörgum notendanöfnum og átti sér fylgjendur á mörgum mismunandi samfélagsmiðlum. Instagram, Snapchat, Discord, Tumblr, Snapchat. Hún var alls staðar. Allt þar til síðasta færslan birtist sem sýndi svipleg örlög hennar.

Aðdáendur hennar kölluðu hanna Biu eða Bee. Þeir sem hötuðust við hana, mest ókunnugir karlmenn, kölluðu hana Internet-hóru, eða jaðarpersónuleika druslu eða seiga steik, slangur meðal svokallaðra kynsveltra karlmanna og vísar til kvenna sem hafa stundað kynlíf.

Hún ólst upp á upplýsingaöldinni, í kringum Internetið þar sem neikvæðar athugasemdir og Nettröll eru daglegt brauð, ekkert óvenjulegt. Svo hún kippti sér ekki upp við slíkt. Hún var einmana og glímdi við erfiðleika sem hún gat flúið með því að skapa sér nýjan raunveruleika á Internetinu.

Í hennar raunverulega áþreifanlega lífi, ekki á netinu, var hún stelpa sem stal skiltum frá Trump-elskandi nágrönnum, skipulagði stúdentamótmæli eftir skotáriásina í. Hún teiknaði andlitsmyndir af ókunnugum og skólafélagi hennar sem hafði lent í alvarlegu einelti sagði síðar að hún var eina stelpan í skólanum sem kom vel fram við hann.

Hún elskaði börn, kettlinga, súkkulaðikökur, kvikmyndina Breakfast Club og að kaupa pastel hárkollur til nota í myndatökum með bestu vinkonu sinni. Það eina sem hún átti erfitt með að elska var hún sjálf.

Hún hét Bianca Michelle Devins og hún var aðeins 17 ára gömul þegar hún lést.

Einræn og feimin

Hún ólst upp í Utica í New York og þar lét hún einnig lífið. Hún stefndi á háskólanám í nánasta nágrenni og ætlaði að læra sálfræði. „Hún vildi ekki fara of langt frá okkur,“ sagði móðir hennar í viðtali.

Bianca var fallegur unglingur en glímdi við mikinn kvíða og depurð. Hún var einræn og þótti heldur feimin. Móðir hennar fór með hana til hvers meðferðaraðilans á eftir öðrum en enginn gat hjálpað henni.

Íbúar í bænum Utica sem þekktu til Biöncu sögðu hana vera yndislega stelpu sem var alltaf tilbúin að styðja við aðra, þó stundum ætti hún til að hegða sér óvenjulega.

Hún þótti furðufugl en þó heillandi. Hún átti það til að klippa af sér nánast allt hárið og lita eftir því í hvernig skapi hún var. Hún sást einnig hlaupandi um verslunina Walmart með lampaskerm á höfðinu.

Hún hafði þó einnig venjur sem ollu vinum hennar áhyggjum. Hún átti það til að ljúga um jafnvel ómerkileg smáatriði. Hún sagði einum skólafélaga til dæmis að hún væri á einhverfurófi og að hún væri gyðingur. Jafnvel að hún kæmi frá Kúbu eða Asíu. En ekkert af þessu var rétt.

Þessi hegðun átti eftir að skýrast árið 2018 þegar hún var greind með jaðarpersónuleikaröskun. Hún leitaði á náðir netsins þar sem hún skapaði þar mismunandi persónur, gekk í mismunandi hlutverk og sóttist þar eftir því að vera elskuð.

Persónan sem vakti mesta athygli var þó sú sem mest rímaði við hennar raunverulega persónuleika. Ljúf, feimin og falleg stúlka sem glímdi við mikla depurð.

Mjög mjög ungar

Þegar fréttir bárust af morðinu vísuðu fjölmiðlar til hennar sem Instagram áhrifavalds, sem var í megindráttum rangt. Hún var aðeins með um 2 þúsund fylgjendur á Instagram, sem telst varla merkjanleg frægð, einkum fyrir manneskju sem býr í jafn fjölmennu landi og Bandaríkjunum. Hún gat þó talist fræg á öðrum miðli, 4chan sem er spjallsvæði þar sem fólk deilir að jafnaði myndum í skjóli nafnleyndar.

Þar má finna mikið af einrænum einstaklingum sem deila því að glíma við andleg veikindi og einmanaleika. Flestir notendur eru karlmenn sem þýðir að konur sem þar deila efni vekja oft mikla athygli og safna um sig mörgum aðdáendum.

Þessar konur deila svipuðum einkennum. Þær eru mjóar, með sakleysisleg augu, fílabeinshvíta húð og hafa gaman af því að klæða sig upp í fantasíu búninga eða Japanskan og Kóreskan tískufatnað.

Þær eiga það líka flestar sameiginlegt að glíma við andleg veikindi og eru flestar mjög mjög ungar.

„Margar okkar sogast inn í þetta þegar við erum 13-14 ára. Við erum svo einmana í raunveruleikanum og glímum við vandamál sem koma í veg fyrir að við sækjum félagslíf með öðrum leiðum, þess vegna endum við á þessum samfélögum og það er erfitt að sleppa þaðan,“ sagði Chloe Frazier, sem var vinkona Biöncu á netinu, í samtali við The Rolling Stone.

Þrátt fyrir ungan aldur eru það oft eldri menn sem sækjast í þessar stúlkur, þeir vilja dýrka þær og dá og fá þær jafnvel á heilann.

Slíkir aðdáendur senda stúlkunum oft gjafir, peninga, fíkniefni og búast við athygli eða nektarmyndum í staðinn. Ef stúlka bregst ekki við þessar athygli og gjafmildi þá falla stúlkurnar í ónáð og geta lent í því að nektarmyndum af þeim sé leið á netið eða þær ofsóttar.

Bianca átti marga slíka aðdáendur. Einn þeirra varð síðar kærasti hennar og áttu þau í stormasömu sambandi um tveggja ára skeið.

Unglingur í uppreisn

Þarna var Bianca farin að hlaupast ítrekað að heiman til að vera með Rob og átti móðir hennar fullt í fangi við að halda henni heima við. Eitt sinn lýsti lögreglan eftir henni og þegar Bianca varð þess áskynja reyndi hún að henta sér fyrir bíl á ferð og þá var hún lögð inn á geðdeild.

Þessi kærasti hefndi sín fyrir ein sambandsslitin með því að deila hefndarklámi og hóta svo að fyrirfara sér til að koma í veg fyrir að vera kærður til lögreglu. Engu að síður hélt Bianca áfram að hlaupast til hans, aftur og aftur. Móðir hennar reyndi allt til að hafa heimil á dóttur sinni. Meðal annars var hún sett í stofufangelsi og látin bera ökklaband til að tryggja að hún kæmist ekki að heiman.

Það stöðvaði þó Biöncu ekki lengi og hún skar af sér ökklabandið og hélt aftur til fundar við kærastann.

Í október 2018 tókst móður hennar að koma henni í langtímameðferð á geðheilbrigðisstofnun. Þar var Bianca greind með jaðarpersónuleikaröskun og fékk loks þá hjálp sem hún þurfti.

Hún fékk að fara fara aftur heim í febrúar 2019 og var þá mun bjartara yfir henni. Henni hafði sjaldan liðið jafn vel og hún og móðir hennar sáu loks ljósið við enda ganganna eftir langa þrautagögnu.

„Og þá tók hann hana frá okkur,“ sagði móðir hennar í viðtali.

Brandon Clark

Vorið 2019 kynntist Bianca manni að nafni Brandon Clark á Netinu. Hann var 21 árs og bjó um klukkustundar keyrslu frá henni. Hann hafði gaman af heilsurækt, tölvuleikjum og þáttunum Madoka Magica. Hann átti líka hrottalega og ofbeldisfulla fortíð. Þegar hann var 12 ára gamall tók faðir hans móður hans sem gísl og ógnaði henni með hníf í tíu klukkustundir því hann var sannfærður um að hún væri honum ótrú. Þetta varð til þess að faðir hans var dæmdur í fangelsi.  Móðir hans var síðar handtekin sjálf fyrir önnur brot og Brandon flakkaði á milli fósturheimila þar til hann varð lögráða. Hann var talinn nördi en líka kurteis og prúður.

Hann átti það reyndar til að fá þráhyggju fyrir hlutum og glímdi við jaðarpersónuleikaröskun eins og Bianca. Þau náðu því vel saman og ákváðu að hittast í raunheimum. Bianca var í leit að vináttu. Hún var loksins búin að finna eins konar jafnvægi og stefndi á háskólanám og taldi vænlegast að halda sig frá ástarsamböndum eftir reynsluna með fyrri kærastanum.

Ætluðu á tónleika sem vinir

Bianca kynnti Brandon fyrir móður sinni og henni leyst vel á hann. Hann var heillandi og kurteis og opnaði sig um erfiða æsku sína og flakk sitt á milli fósturheimila. Svo þegar Bianca sagðist ætla með Brandon á tónleika sá hún ekkert athugavert við það, svo lengi sem Brandon myndi skutla stúlkunni heim strax eftir að tónleikunum lyki.

Vitnum ber saman að Bianca hafi verið mjög skýr við Brandon um eðli sambands þeirra. Þau væru vinir, hún væri á leið í háskóla og hefði engan áhuga á sambandi.

Bianca átti því að skila sér heim þann 14 júlí 2019 eftir áðurnefnda tónleika, seint um nóttina og læðast í gegnum stofuna inn í litla herbergi sitt og leggjast þar til svefns.

Það er þó ekki það sem gerðist.

Skuggaleg færsla

Klukkan þrjár mínútur yfir sex um nóttina voru skilaboð birt á síðu Biöncu á síðunni Discord. „Sorry aular, en þið þurfið að finna einhverja aðra til að dýrka,“ stóð og með færslunni var mynd af dökkhærðri konu sem hafði verið skorin á háls, andlit hennar blóðugt.

Við fyrstu sýn mátti halda að myndin væri sviðsett og margir töldu að svo væri raunin. „Ég brást ekkert illa við þessu – ég hélt þetta væri bara ógeðsleg mynd,“ sagði ein af Netvinum Biöncu.

Einhver reyndi að finna út hvaðan myndin kom og spurði í athugasemd hvaðan hún væri þegar honum tókst ekki að hafa upp á henni. „Hún er tekin úr fucking bílnum mínum. Ég ríð Biöncu asni,“ var svarið.

Næstu tímana reyndu vinir Biöncu að finna út hvað væri í gangi og fljótlega varð atburðarás kvöldsins ljós. Á tónleikunum ætluðu Bianca og Brandon að hitta þriðja aðilann, strák sem kallaði sig Oipu og hafði lengi verið meðlimur af þessu netsamfélagi sem þau öll tilheyrðu.

Bianca sendi einkaskilaboð til netvinkonu þar sem hún lýsti yfir áhuga á þessum Oipu „Hann lyktar svo vel. Hann er fullkominn. Ég er ástfangin“:

Þegar Brandon skrapp frá til að sækja drykki lét Bianca til skara skríða og hún og Oipu deildu kossu. Þeim af óvitandi varð Brandon vitni að þessum kossi. Hann hafði ekki verið sáttur með að vera bara vinur Biöncu, hann vildi meira. En hún vildi hann greinilega ekki.

Hringdi sjálfur í neyðarlínuna

Klukkustund eftir að myndin var birt byrjuðu símtöl að berast lögreglu meðal annars frá fjölskyldu Brandons sem hafði fundið miða sem minnti á sjálfsmorðsbréf heima hjá frænku hans.

Hann hafði líka deilt myndum og skilaboðum á Instagram sem vöktu miklar áhyggjur, meðal annars mynd af blóðugum kvenmannshandlegg með textanum „Fyrirgefðu Bianca,“ og hann hafði breytt lýsingu sinni til að innihalda dánardag sinn.

Hann hafði líka sent mömmu sinni skilaboð á Facebok. „Fyrirgefðu mamma. Ég elska þig“

7:30 hringdi Brandon sjálfur í neyðarlínuna og gaf upp hvar hann væri að finna. Hann sagði að hann hefði framið morð og ætlaði að fyrirfara sér og tók fram að hann væri líffæragjafi.

Þegar lögreglu bar að garði komu þau að Brandon liggjandi á jörðinni.  Hann hafði skrifað „Megir þú aldrei gleyma mér,“ á jörðina með spreybrúsa og var að sýna frá þessu í beinni útsendingu á Instagram. Brandon skar sig svo á háls og tók svo sjálfsmynd sem hann birti á Instagram. Hann hafði þó ekki reiknað með því hvað það væri sárt og erfitt að taka eigið líf með þessum hætti. Skurðurinn var ekki nægilega djúpur til að drepa en olli samt umtalsverðum sársauka og þegar lögreglan var komin á svæðið engdist hann um af sársauka á jörðinni.

Einn lögreglumannanna spurði hvar Bianca væri. „Hvar í fjandanum heldur þú að hún sé,“ svaraði Brandon og það var þá sem lögregla sá að hjá Brandon var græn yfirbreiðsla og undan henni mátti glitta í dökkt hár.

Internetið gleymir aldrei 

Ekki virtist flókið að setja saman hvað hafði gerst. Svo virtist sem að Brandon hefði sturlast af afbrýði og drepið Biöncu. Hins vegar átti rannsókn lögreglu eftir að leiða í ljós að Brandon hafði áformað þetta í einhvern tíma. Þetta var ekki ástríðuglæpur heldur morð af yfirlögðu ráði.

Brandon var dæmdur í fangelsi í 25 ár til lífstíðar. Þrátt fyrir að hafa játað á sig brotið strax í upphafi reyndi hann að draga játninguna til baka. Fjölskylda Biöncu bar vitni fyrir dómi og greindu frá því hversu hryllilegt það er þegar myndir af myrtum ástvin fer á flug á netinu. „við losnum ekki við þessa mynd úr huga okkar. Enginn ætti að þurfa að sjá ástvin sinn í þessu ástandi,“ sagði móðir Biöncu við réttarhöldin.

Morðið vakti mikinn óhug og þó að Bianca og Brandon hafi þekkst úr raunheimum líka þótti morðið dæmi um hættur internetsamfélaga þar sem svonefndir kynsveltir karlmenn (e. incels) koma saman og æsa hvern annan upp í kvenfyrirlitningu og hatri sem og hvetja til kynbundins ofbeldi. Á síðunni 4chan var Brandon í slíku samfélagi sem þar þreifst hylltur sem hetja og gengu myndir af voðaverkinu á milli manna þar um langa hríð.  Brandon drap ekki bara Biöncu heldur deildi hann einnig ferlinu á netinu, sem benti sterklega til þess að hann hafi gert þetta til að afla sér vinsælda.

Instagram, Facebook og Discort reyndu hvað fyrirtækin gátu til að stöðva dreifingu myndanna og eyddu reikningum Brandons. En Internetið gleymir aldrei neinu. Það mun fjölskylda Biöncu heldur ekki gera. Þau munu aldrei gleyma því hvað gerðist og því að enn eru til myndir af því á netinu. Enn eru óprúttnir aðilar að senda fjölskyldumeðlimum myndirnar beint og segjast þau bera ör á sálinni sem aldrei eigi eftir að hverfa.

___________

Sakamálið verður aðgengilegt í hljóðupptöku eftir helgi. Við biðjumst velvirðingar á seinkuninni. Þeir sem misstu af sakamálinu í síðustu viku geta lesið eða hlustað á það hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“