Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Hanne Krage Carlsen, doktor í lýðheilsufræðum við Gautaborgarháskóla, að niðurstöðurnar hafi komið á óvart. Hún gerði rannsóknina í samstarfi við eldfjallafræðinginn Evgeníu Ilynskaja. Rannsóknin hefur verið birt í tímaritinu Nature Communications en hún var unnin af Háskóla Íslands og Háskólanum í Leeds.
Á meðan á gosinu í Holuhrauni stóð voru gefnar út viðvaranir vegna brennisteinsdíoxíðsmengunar en engar viðvaranir voru gefnar út vegna brennisteinssýrunnar sem ummyndaðist i gosmekkinum. Áhrif hennar voru meiri á eldra fólk og komu aðallega fram samdægurs eða innan örfárra daga. „Okkur dettur í hug að aldraðir hafi passað sig meira þegar viðvaranir komu um brennisteinsdíoxíð,“ er haft eftir Hanne.
Mengunar varð vart í Reykjavík, um 250 kílómetra frá Holuhrauni, haustið 2014. Einnig er vitað að agnir frá gosinu í Holuhrauni bárust til meginlands Evrópu en engar rannsóknir eru til um heilsufarsleg áhrif gossins þar eða langtímaáhrif þess hér á landi. Helstu sjúkdómarnir sem fylgdu menguninni voru astmi, bronkítis, lungnabólga og nefrennsli.
Á heimsvísu látast rúmlega þrjár milljónir manna ótímabærum dauða árlega vegna mengandi agna, bæði frá eldfjöllum og manngerðra.
Hanne og Evgenía fengu ekki aðgang að gögnum um dánartíðni hér á landi og því sagðist Hanne ekki treysta sér til að fullyrða að einhver hafi látist vegna gossins í Holuhrauni en sagði: „Það er ekki hægt að útiloka að einhver hafi dáið.“ Hún benti jafnframt á að einn og einn dagur hér á landi á fjögurra mánaða tímabili væri ekki sambærilegt við að búa í mengaðri stórborg.