Tundurskeytið nefnist Poseidon 2M39 og dregur 10.000 kílómetra. Það mun því geta náð að ströndum Bandaríkjanna. The Times segir að fyrirhugað sé að koma 30 tundurskeytum af þessari tegund fyrir í flotastöðvum í norðurhluta Rússlands sumarið 2022.
Gervihnattarmyndir, sem CNN fékk frá geimtæknifyrirtækinu Maxar, sýna að Rússar eru að nútímavæða herstöðvar á Norðurslóðum, herstöðvar sem voru reistar á tímum Sovétríkjanna, og koma upp neðanjarðaraðstöðu. Þetta er til dæmis verið að gera nærri Murmansk, ekki fjarri norsku landamærunum. Í þessum herstöðvum er einnig fyrirhugað að koma öðru nýju vopni Rússa fyrir, ofurhljóðhraða eldflauginni Tsirkon sem er hönnuð til að hæfa stríðsskip óvinanna.
Þetta vopnaskak Rússa, Kínverja og Bandaríkjamanna helst í hendur við aukna spennu á alþjóðavettvangi. Öll ríkin vinna nú að þróun eldflauga sem fljúga á margföldum hljóðhraða og geta komist í gegnum allar eldflaugavarnir.
2016 og 2018 gerðu Rússar tilraunir með slíka eldflaug, Avangard, sem getur breytt stefnu sinni á leiðinni á áfangastað. CNN segir að í desember 2019 hafi Rússar tilkynnt að þeir hafi komið slíkum eldflaugum fyrir á tveimur SS-19 langdrægum eldflaugum.
Frá 2014 hafa Kínverjar níu sinnum gert tilraunir með fyrstu ofurhljóðhraða eldflaug sína, DF–ZF. Hún er eins og Avangard þróuð til að fljúga mjög hratt í lítilli hæð svo erfitt sé að skjóta hana niður.
Í október 2020 tilkynnti Rússneski herinn að tilraun með Tsirkon eldflaug hefði gengið vel og hefði hún flogið á áttföldum hljóðhraða. Bandaríkin ætla að gera enn betur þrátt fyrir að þau hafi byrjað seinna en hinar þjóðirnar á þróun ofurhraða eldflauga. Markmið þeirra er að koma sér upp eldflaug sem getur flogið á tuttuguföldum hljóðhraða eða 24.000 km/klst. Slík eldflaug myndi ná til Moskvu á 20 mínútum og Peking á hálfri klukkustund.