Samsæriskenningar og innræting öfgahyggju hjá fólki sem er jafnvel reiðubúið til að beita ofbeldi er nú meðal þeirra þátta sem PET varar við hættunni af.
Í hættumatinu kemur fram að andstaða við aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins „geti leitt til líflátshótana, borgaralegrar óhlýðni, íkveikja, skemmdarverka og ofbeldisverka sem geti í lögfræðilegum skilningi verið hryðjuverk“.
Hættumatið var sent út eftir að reynt var að kveikja í sýnatöku- og bólusetningamiðstöð í Ballerup um miðjan mars með eldsprengjum. Ekki er vitað hvað lá að baki tilrauninni sem fór út um þúfur. Í kjölfarið jók lögreglan öryggisráðstafanir við sýnatöku- og bólusetningamiðstöðvar. Þá hafa margir sótt mótmæli sem boðað hefur verið til gegn sóttvarnaráðstöfunum og nýjum farsóttalögum.
Í hættumatinu kemur fram að aukin áhersla á andstöðu við yfirvöld „geti haft áhrif á þau skotmörk sem öfgahægrimenn velja“. PET leggur þó áherslu á að heimsfaraldurinn sé ekki stór drifkraftur hvað varðar hryðjuverk í landinu en hann hafi þó reitt marga til reiði, sérstaklega þá sem eru á móti sóttvarnaráðstöfunum.