Maðurinn sem handtekinn var vegna hnífaárásar á Sushi Social á þriðjudagskvöld er nú laus úr haldi. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við blaðamann DV. Margeir segir jafnframt að málið sé að mestu upplýst.
Samkvæmt heimildum DV réðst maðurinn á annan inn á veitingastaðnum, eins og sjá má á neðangreindu myndbandi sem DV birti í gær. Hlaut fórnarlamb árásarmannsins nokkuð mörg stungusár og var fluttur á sjúkrahús þaðan sem hann var síðar útskrifaður. Herma heimildir DV að útlit sé fyrir að hann muni ná sér að fullu.
DV ræddi í gær við starfsmann veitingastaðarins sem var á staðnum þegar árásin átti sér stað. „Þetta var bara mjög fljótt að gerast, maður sá varla hvað var í gangi. Þetta byrjaði og endaði áður en maður vissi af því og svo var lögreglan bara mætt,“ sagði starfsmaðurinn.
Einn var handtekinn vegna málsins, en honum hefur sem fyrr sagði, nú verið sleppt úr haldi. Maðurinn er á þrítugsaldri og hefur ítrekað komist í kast við lögin áður. Árið 2012 var hann dæmdur fyrir innbrot og þjófnað í tölvuverslun í Reykjavík sem hann framdi árið áður, þá 19 ára gamall. Í sama máli var hann ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum lítilræði af kannabisefnum. Maðurinn játaði skýlaust sök sína.
Árið 2017 var maðurinn dæmdur aftur og þá fyrir samtals 11 brot. Þeirra á meðal voru ölvunarakstursbrot, varsla fíkniefna og ræktun kannabisplantna. Þá var maðurinn handtekinn fyrir fíkniefnasmygl árið 2014 eftir að tollverðir fundu rúmt hálft kíló af amfetamíni sem hann hafði falið innanklæða og innvortis. Fyrir smyglið auk árásar á lögregluþjón, eignaspjöll og vörslu stera hlaut maðurinn tíu mánaða fangelsisdóm í héraðsdómi.