Rússar hafa stutt dyggilega við bakið á aðskilnaðarsinnum í Donetsk sem berjast gegn úkraínska hernum. NATO og bandaríska herstjórnin í Evrópu segja nú að ekki sé útilokað að Rússar hyggist á innrás í Úkraínu nú á vormánuðum miðað við þann herafla sem þeir hafa sent að landamærunum.
Heræfingar voru nærri landamærunum í vetur en reiknað var með að 4.000 rússneskir hermenn myndu yfirgefa landamærasvæðið þegar æfingunum lauk en það hafa þeir ekki gert og þeir hafa fengið ný og fullkomnari vopn en áður. Einnig hafa Rússar fjölgað hermönnum úr úrvalssveitum sínum á Krímskaga en hann hertóku þeir 2014 og innlimuðu.
Ein af kenningunum um umsvif Rússa er að Pútín sé reiður út í Biden sem kallaði hann morðingja á fyrsta fréttamannafundi sínum og að Pútín vilji sýna Biden að hann geti komið málefnum Úkraínu efst á blað hjá Biden sem hefur ekki sýnt átökunum í Úkraínu mikinn áhuga fram að þessu. Frederick Hodges, fyrrum aðmíráll í Bandaríkjaher, sagði í samtali við New York Times að hugsanlega séu Rússar að láta reyna á ríkisstjórn Biden. Hann sagði það Pútín í hag að viðhalda eins miklu ójafnvægi og hægt er í austurhluta Úkraínu og að skilaboðin til Biden séu að ekki sé hægt að leysa deiluna án þess að Vesturlönd gefi eftir en þau hafa beitt Rússa refsiaðgerðum síðan þeir innlimuðu Krímskagann. Biden lýsti einnig yfir stuðningi við Úkraínu eftir að hann ræddi símleiðis við Pútín í janúar.
Michael Kofman, hjá hugveitunni Woodrow Wilson International Center, segir í Moscow Times að Pútín sé með þessu að hóta Úkraínu óbeint og auka þrýstinginn á landið og vestræna bandamenn þess. Hann sagði að raunveruleg ógn stafi frá þessum umsvifum Rússa við landamærin og að ekki sé hægt að skýra allar hreyfingar hersveita með æfingum. Því sé ekki hægt að útiloka að Rússar séu að undirbúa innrás.