Zlatan Ibrahimovic, leikmaður AC Milan, hefur verið harðlega gagnrýndur í heimalandinu eftir að hafa fengið sér skotvopnaleyfi og skotið ljón í Suður Afríku og tekið líkamsparta dýrsins með sér heim segir í frétt Daily Mail.
Dýraverndunarsamtökin PETA harma fréttirnar af sænska framherjanum og hafa gefið út yfirlýsingu:
„Zlatan Ibrahimovic elskar að líkja sér við ljón, kraftmikill og sterkur, en ánægja hans á því að skjóta ljón og önnur dýr sýnir að hann er hugleysingi sem ýtir undir ofbeldishneigð sína með þessu athæfi.“
„Það er enginn hæfileiki að skjóta dýr sem getur sér enga björg veitt. Allir með vott af samvisku ættu að sjá að það að myrða dýr til þess eins að skemmta sér og sýna líkamshluta þeirra er hræðilegt.“