Franck Ribery knattspyrnumaður frá Frakklandi segir að stórt ör í andliti hafi gefið sér styrk og vilja til þess að ná langt í fótboltanum. Ribery sem er í dag 37 ára gamall hefur spilað á meðal þeirra bestu um langt skeið, ör í andliti hans hafa alltaf vakið athygli.
Ribery var tveggja ára gamall þegar hann var farþegi í bíl sem lenti í hörðum árekstri, hann var fluttur á sjúkrahús þar sem 100 spor voru saumuð í andlit hans. Ribery var ekki í bílbelti í bílnum og skaust út um rúðu hans.
„Fólk var alltaf að tala um andlitið á mér og örin, þetta var oft erfitt. Það var alltaf verið að segja mér hvað þetta væri ljótt,“ sagði Ribery í viðtali um málið á dögunum.
„Þetta snerist aldrei um mig sem persónu eða sem knattspyrnumann, öll ummæli voru um örið í andlitinu.“
„Þetta gerði mig að sterkum karakter, þegar þú ert ungur drengur með svona ör þá er það oft erfitt. Fjölskylda mín þjáðist oft þegar hún heyrði talað um mig.“
Þó að Ribery tali um að örið hafi styrkt sig þá var lífið oft erfitt. „Það er mikilvægt að foreldrar ræði við börn sín, ég grét aldrei en þetta særði mig.“
„Ég flaug út úr bílnum, slysið hjálpaði mér á þannig hátt að ég vildi ná árangri eftir það. Guð gaf mér tækifæri, örið er hluti af mér og fólk þarf að taka mér eins og ég er.“
Ribery er í dag 37 ára gamall en hann lék með FC Bayern frá 2007 til 2019 en hefur síðan þá spilað með Fiorentina á Ítalíu.