Jhon Viáfara fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu hefur verið dæmdur í ellefu ára fangelsi, Viáfara ætlaði sér að smygla tveimur tonnum af kókaíni frá Kólumbíu til Bandaríkjanna.
Viáfara er frá Kólumbíu en hann lék með Southampton og Portsmouth á Englandi. Málið hefur verið til rannsóknar í þrjú ár en í dómnum kemur fram að Viáfara hafi verið í samstarfi við glæpahring vegna málsins.
Dómurinn var kveðinn upp í Texas á dögunum en efnið var flutt með hraðskreiðum bátum frá Kólumbíu með viðkomu í Mexíkó og þaðan til Bandaríkjanna.
Talið er að kókaínið sem Viáfara smyglaði til Bandaríkjanna sé virði 3,7 milljarða íslenskra króna. Viáfara lék á Englandi frá 2005 til 2008 en hann lék tugi landsleikja fyrir Kólumbíu.
„Sakborningur þessa mál hafði allan pakkann, hann hafði frægð, fjármuni og sterka stöðu í samfélaginu. Hann ákvað hins vegar að stunda glæpi,“ sagði saksóknari málsins. Í dómnum kemur fram að þetta hafi allt verið gert í samstarfi við Sinaloa glæpahringinn.