Union Berlin og Hertha Berlin mættust í nágrannaslag í þýsku Bundesligunni í dag. Hvorugu liðinu tókst að vinna sér inn montréttinn í höfuðborginni í þetta skiptið, jafntefli niðurstaðan. Í hinum leik dagsins sigraði Stuttgart Werder Bremen.
Robert Andrich kom Union yfir snemma í leiknum með góðu skoti fyrir utan teig. Dodi Lukebakio tókst að jafna metin fyrir Hertha um 10 mínútum fyrir leikhlé.
Hvorugu liðinu tókst að finna sigurmarkið í þessum nágrannaslag og stigunum því deilt.
Union er fjórum stigum frá Evrópusæti eftir leikinn. Hertha er enn í fallhættu eftir slappt tímabil hingað til.
Fyrr í dag lagði Stuttgart Werder Bremen með einu marki gegn engu. Sjálfsmark Ludwig Augustinsson skildi liðin að.
Stuttgart er í baráttu um Evrópusæti en Werder er í 13.sæti, nokkuð vel fyrir ofan fallsvæðið.