Mateo Kovacic, leikmaður Chelsea, var vægast sagt ósáttur við David Coote eftir 2-5 tap liðsins gegn WBA á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leikmaðurinn heyrðist kalla dómarann þann versta í sögunni.
Chelsea komst yfir í leiknum en í stöðunni 1-0 misstu þeir Thiago Silva af velli. Hann hafði fengið sitt annað gula spjald. Manni fleiri tókst WBA svo að snúa leiknum við.
Í stöðunni 3-1 fyrir gestina gaf Coote Kovacic gult spjald fyrir brot á Callum Robinson. Sá fyrrnefndi var greinilega orðinn mjög pirraður á þessum tímapunkti leiksins og lét ófögur ummæli falla.
,,Þú ættir að skammast þín, jájá, vel gert. Versti dómari sögunnar,“ voru orðin sem mátti heyra Kovacic segja.
Með þessu tapi í gær galopnaðist baráttan um Meistaradeildarsæti. Chelsea er í 4.sæti, einungis með tveggja stiga forystu á Liverpool og West Ham sem koma í sætunum á eftir.