Ríkisstjórn Bretlands hefur valið leik Southampton og Leicester City í undanúrslitum FA-bikarsins til þess að prófa að fá áhorfendur aftur á völlinn. Leikurinn sem fer fram 18. apríl verður spilaður fyrir framan 4000 áhorfendur á Wembley.
Það verða þó ekki endilega stuðningsmenn liðanna sem fá að mæta á völlinn heldur fær fólk sem býr í nágrenninu sem og starfsmenn úr heilbrigðiskerfinu það hlutverk. Þetta er vegna þess að stjórnvöld vilja ekki að fólk sé að ferðast langar vegalengdir þar sem þá sé meiri smithætta á leiðinni á völlinn.
Það er tekið skýrt fram að þetta sé prufa til að rannsaka hvernig hægt sé að halda fólki öruggu í margmenni frekar en tækifæri fyrir stuðningsmenn liðanna að styðja sinn klúbb segir í frétt Daily Mail. Þá vilja vísindamenn athuga hvort hægt sé að taka flýti Covid-19 próf á staðnum.
Skipulagðir eru fjórtán prufuleikir til þess að athuga hvort bólusetningar og Covid-19 próf sé nægilegt til að koma í veg fyrir dreifingu veirunnar skæðu á íþróttaviðburðum. Undanúrslitaleikur Leicester og Southampton verður líklega fyrsti prufuleikurinn en á listanum eru einnig úrslitaleikir Carabao og FA bikarsins. Stefnt er að því að auka alltaf fjölda áhorfenda á leikjum og vonir standa til að 20 þúsund manns geti verið á Wembley í úrslitaleik FA bikarsins og 45 þúsund í lokaleikjum EM í knattspyrnu í sumar sem fara fram á Wembley.