Argentíski sóknartengiliðurinn Paulo Dybala hefur komið sér í vandræði eftir að hafa mætt í ólöglegt samkvæmi með liðsfélögum sínum, Weston McKennie og Arthur á meðan útgöngubann er í fullum gangi á Ítalíu.
Juventus hafa tekið hart á þessu máli og fá leikmennirnir ekki að taka þátt í nágrannaslagnum sem fer fram í dag klukkan 16. Það virðist ekki eina refsingin sem Dybala fær þar sem stjórn klúbbsins vill nú losa sig við hann segir í frétt Daily Mail.
Juventus ætlar að reyna að fá pening fyrir leikmanninn í sumar frekar en að leyfa honum að fara frítt sumarið 2022. Þá er einnig í umræðunni að skipt verði á honum og stærra nafni þegar félagsskiptaglugginn opnar segir í frétt Tuttosport. Talið er að það gæti reynst erfitt fyrir félagið vegna þrálátra meiðsla kappans en einnig vegna þess hvað hann á auðvelt með að koma sér í vandræði og hlýðir illa þeim reglum sem settar eru fyrir hann.
Dybala hefur beðist afsökunar á að hafa mætt í samkvæmið og sagði á Instagram síðu sinni:
„Ég veit að það hefði verið betra að forðast þetta en ég hafði rangt fyrir mér og biðst afsökunar.“