Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari í þjálfarateymi íslenska u-21 árs landsliðinu er ekki sáttur með að þurfa að eyða páskunum á sóttvarnarhóteli eftir að landsliðið sneri aftur til Íslands eftir þátttöku á Evrópumóti u-21 árs landsliða.
„Eftir 8 skimanir og einangrun í Ungverjalandi þá bíður okkar dvöl í sóttvarnarhúsi fram á þriðjudag í næstu viku…alveg eðlilegt bara,“ skrifar Jörundur Áki Sveinsson í færslu sem hann birti á Twitter í gær.
Þær reglur tóku gildi í dag að einstaklingar eru skikkaðir í farsóttarhús við komuna til landsins ef þeir eru að koma frá ríkjum sem teljast til áhættusvæða vegna Covid-19.
U-21 árs landsliðið hefur dvalið í Ungverjalandi þar sem Evrópumótið fór fram á meðan að A-landsliðið hefur flakkað á milli landa þar sem liðið átti þrjá útileiki í undankeppni HM. Liðið byrjaði í Þýskalandi, fór svo til Armeníu og dvaldi svo í Sviss.
Öll hersingin, A-landsliðið, u-21 árs landsliðið og tengdir aðilar, ferðuðust með sömu flugvél til Íslands en örlög þeirra voru misjöfn við komuna til landsins. Í stað þess að þurfa að dúsa á sóttvarnarhóteli fengu þeir einstaklingar sem voru tengdir A-landsliðinu að halda heim á leið í fimm daga sóttkví.
Flugvélin sótti U21 árs landsliðið í Ungverjalandi og stoppaði svo við og tók upp A-landsliðið eftir sigurinn á Liechtenstein á miðvikudag.
Samkvæmt heimildum 433.is voru einstaklingarnir sem skikkaðir voru á sóttvarnarhótel aldrei spurðir út í ráðstöfunina, þau enduðu bara á sóttvarnarhóteli. Gaddavírsgirðing aðskildi föruneyti u-21 árs landsliðsins og A-landsliðsins þegar komið var út úr flugvélinni.
„Þeir sem voru með A-landsliðinu bara veifuðu bless hinu megin við girðinguna,“ segir heimildamaður 433.is.
Hafliði Breiðfjörð, ritstjóri fotbolti.net tók meðfylgjandi mynd sem sýnir að gaddavírsgirðing skilur að föruneyti A-landsliðsins og U-21 árs landsliðsins:
Gaddavírsgirðing skilur að A-landslið Íslands og U21 í Leifsstöð. U21 kom heim frá eldrauðu svæði og þurfti að fara á sóttvarnarhótel meðan hinir fóru heim í sóttkví. Kannski lýsandi fyrir frelsissviptinguna að gaddavírsgirðing sé notuð til að afmarka sem fóru á hótelið. pic.twitter.com/kLDKTOo8Wk
— Hafliði Breiðfjörð (@haflidib) April 1, 2021