UEFA staðfesti eftir fund í gær að fimm skiptingar verði leyfðar á EM í sumar. Þá eru samtökin einnig að íhuga hvort landsliðin fái að hafa stærri hópa en þá 23 leikmenn sem venja hefur verið fyrir.
Á meðan smitum af völdum kórónuveirunnar fjölgar í Evrópu þá hafa þjálfarar óskað eftir því að hóparnir verði stækkaðir ef upp koma smit þar sem ekki verður svigrúm til þess að fresta leikjum á mótinu sjálfu. Ákvörðun hefur ekki verið tekin í málinu og enn er óvíst hvort þeir leikmenn sem bætist við verði með liðinu á hóteli eða hægt verði að kalla í þá ef upp kemur smit.
Eins og þekkt er verður EM með öðru sniði í ár og verður mótið haldið í 12 löndum á víð og dreif um Evrópu. Öll þau lönd munu þurfa að senda á UEFA hvort þau geti haldið mótið og hversu margir áhorfendur geti verið í stúkunni næsta miðvikudag. Þá verður tekin lokaákvörðun um það hvort mótið fari fram eins og planað var eða hvort einhver lönd fái ekki að vera með.