Móðir Cristiano Ronaldo, Dolores, sagði nýverið frá því í viðtali að sonur Ronaldo hefði grátbeðið hana um að halda lífi er hún fékk heilablóðfall.
Dolores sem er 66 ára gömul fékk heilablóðfall í heimabæ sínum Madeira síðastliðið vor og var flutt í skyndi á spítala.
„Ég stóð upp til að fara inn á baðherbergi en það leið yfir mig og ég datt. Þegar ég rankaði við mér reyndi ég að komast upp en áttaði mig á því að öll vinstri hliðin mín var lömuð. Þá var hringt fyrir mig á sjúkrabíl.“
„Þetta var virkilega erfið upplifun og ég hélt að þetta væri endirinn. Þegar ég sá barnabarnið mitt, Cristianinho, biðja mig hágrátandi um að deyja ekki þá brast ég sjálf í grát. Mig langar að sjá barnabörn mín vaxa úr grasi og með mikilli trú hófst það,“ sagði Dolores við portúgölsku sjónvarpsstöðina TVI.
Hún þakkar syni sínum, stórstjörnunni Cristiano Ronaldo fyrir hjálpina en hann flaug frá Ítalíu til að styðja hana í gegnum veikindin.
„Það er svo mikilvægt að komast strax á sjúkrahús. Cristiano hringdi strax í lækni og ég fór samstundis í aðgerð. Það eru ekki allir jafn heppnir og ég.“
Dolores líður vel í dag og er hægt og rólega að ná upp fyrri styrk.