Lee Collins, fyrirliði Yeovil Town sem leikur í utandeildinni í Englandi, lést í gær aðeins 32 ára gamall.
Collins hefur leikið 8 leiki fyrir félagið á leiktíðinni, síðast í 1-0 tapi gegn Stockport í febrúar. Collins hefur leikið með ýmsum liðum í Englandi en samdi við Yeovil Town fyrir tveimur árum og var strax gerður að fyrirliða liðsins. Hann hefur í heildina spilað 37 leiki fyrir félagið.
„Lee lést í gær og hugsanir okkar eru með fjölskyldu hans og vinum. Við biðjum alla að virða einkalíf fjölskyldunnar að svo stöddu,“ segir í yfirlýsingu á vefsíðu félagsins.“
Yeovil átti að spila við Altrincham á morgun en þeim leik hefur nú verið frestað.