Erling Haaland er einn eftirsóttasti leikmaður heims um þessar mundir og hefur verið orðaður við ýmis lið þar á meðal Real Madrid, Barcelona og Manchester City. Hann hefur átt afar gott tímabil hjá Dortmund, hefur skorað 21 mark og gefið 4 stoðsendingar þar að auki í Bundesligunni. Þá er hann markahæstur í Meistaradeildinni með 10 mörk.
Barcelona virðast vera komnir lengst í samningaviðræðum við norska framherjann þar sem Mino Raiola, umboðsmaður Haaland, og faðir hans voru myndaðir í Barcelona í morgun. Spænski fréttamiðillinn Sport birti myndband af þeim félögum í Katalóníu er þeir lentu í morgun.
Haaland er með 65 milljón punda klásúlu sem virkjast sumarið 2022 en gæti farið fyrr þar sem Dortmund er í vandræðum með tryggja sér Meistaradeildarsæti. Talið er að kaupverðið sé um 154 milljónir punda.
Mikið hefur verið skrifað um fjárhagsvandræði Barcelona en þá er talið að samband Raiola og Laporta, nýkjörins formanns Barcelona, sýni að báðir aðilar eru vongóðir um að samningar náist.